Hækkun á fasteignagjöldum: hvað þýðir það?

Guðrún Stefanía og Eyrún Fríða

Nú um mánaðarmótin voru innheimt fasteignagjöld í fyrsta sinn á þessu ári. Ýmsar breytingar hafa orðið síðan í fyrra og því viljum við útskýra þær hér. 

Fyrir það fyrsta ákvað bæjarstjórn að fjölga greiðsludögum úr 8 yfir í 11. Fasteignagjöldin dreifast þá á fleiri gjalddaga og var ætlunin að jafna þetta yfir árið til að útgjöldin geti verið fyrirsjáanlegri fyrir íbúa og rekstraraðila. 

Hin breytingin er svo falin í upphæðinni sem er innheimt, nú 11 sinnum á ári. Sveitarfélagið innheimtir svokölluð fasteignagjöld. Innifalið í þeim gjöldum eru fasteignaskattar, lóðaleigugjöld, vatns- og holræsagjöld og sorpgjöld. Flest þeirra tóku einfaldri vísitöluhækkun á milli ára en breyting varð á fasteignasköttunum og sorpgjöldum. Hér viljum við útskýra þær breytingar. 

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru þeir í grunninn þrír:

  • Fasteignaskattar

  • Útsvar

  • Sértækar greiðslur frá ríki til sveitarfélaga. 

Því er álagður fasteignaskattur einn helsti tekjustofn sveitarfélaga en á sama tíma einn stærsti útgjaldaliður heimilanna. Þetta þýðir að það er afar vandmeðfarið að halda þeim hóflegum en þó þannig að sveitarfélagið geti staðið undir þeirri þjónustu sem íbúar þurfa og vilja. Helsta leiðin til að fara er að lækka álagningarprósentu fasteignaskattsins. Á síðasta kjörtímabili var álagningarprósentan á íbúðarhúsnæði lækkuð úr hámarkinu sem er lögum samkvæmt 0,5% og niður í 0,41%. Vegna Covid-19 faraldursins var fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkaður líka úr 1,65% niður í 1,49%. Var þetta gert til þess að komast til móts við fyrirtækin í sveitarfélaginu vegna mögulegrar tekjuskerðingar. Nú við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember 2022 var álagningarprósenta á atvinnuhúsnæði færð aftur í sama horf og fyrir heimsfaraldur, þ.e. aftur í 1,65%.

Álagningarprósentan á íbúðarhúsnæði var þá lækkuð úr 0,41% niður í 0,37%. Markmiðið var að draga úr þeirri hækkun sem hækkun fasteignamats myndi hafa í för með sér. Sú lækkun er þó einnig vandmeðfarin þar sem að framlög til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði skerðast um leið og sveitarfélagið fullnýtir ekki tekjustofna sína. Með öðrum orðum að um leið og sveitarfélagið innheimtir ekki 0,5% fasteignaskatt þá fær það minni greiðslur frá Jöfnunarsjóði og tekjurnar skerðast enn frekar. 

Hin breytingin á fasteignagjöldum er svo fólgin í 10% hækkun á sorpgjöldum. Í nýjum lögum um úrgangsstjórnun er kveðið á um að sveitarfélög þurfi að innheimta raunkostnað við málaflokkinn, þ.e. hvað það kostar að hirða sorp, eyða því eða vinna úr því. Þetta nýja ákvæði þýðir að sveitarfélagið verður að hækka þennan kostnaðarlið þar sem kostnaðurinn hefur hingað til verið að miklu leiti greiddur af sveitarfélaginu en ekki íbúum og fyrirtækjum eins og gert er ráð fyrir. Í ár hækka því sorpgjöld um 10% til að stíga skref í áttina að því að greitt sé fyrir sorp eins og lög gera ráð fyrir. Vegna nýrra laga um úrgangsstjórnun eru ýmsar breytingar fyrirætlaðar á málaflokknum til þess að mæta nýjum kröfum. Því má gera ráð fyrir að sorpgjöld taki einnig breytingum á næstu árum og 10% prósentuhækkunin því eingöngu fyrsta skref í þeim breytingum. 

Breytingar á fasteignagjöldum eru því tilkomnar vegna lagaákvæða um hvernig sveitarfélög eiga að innheimta gjöld af íbúum sínum og fyrirtækjum. Þó svo að fasteignaskattar hafi hækkað hjá flestum, vegna mikillar hækkunar á fasteignamati, þá er samt um að ræða mun minni hækkun en hefði orðið ef álagningarprósentan hefði verið sú sama á milli ára. Markmiðið var að draga úr þessari hækkun án þess þó að skerða tekjur sveitarfélagsins og möguleika þess á að standa undir þjónustu. 

Fyrir hönd Kex,

Eyrún Fríða Árnadóttir

Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Previous
Previous

Fjórða tunnan

Next
Next

Aðalskipulag og framtíðarsýnin