Saman erum við sterkari

Höfundur er Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Komiði sæl!
Guðrún Stefanía heiti ég en er oftast kölluð Stefanía. Ég verð 29 ára gömul á árinu og er alin upp að hluta til á Mýrum og gekk í Mýrarskóla þangað til að hann var lagður niður í kringum aldamótin. Ég bjó í nokkurn tíma í Skaftafelli í Öræfum þar sem ég starfaði í þjóðgarðinum en flutti til Hafnar 2019 ásamt sambýlismanni mínum, Ágústi Elvarssyni. Saman eigum við síðan eina yndislega dóttur, hana Máneyju Dröfn. Við gátum ekki hugsað okkur annan stað til að búa á enda höfum við bæði sterka tengingu og stórt bakland hér á Höfn. Í dag starfa ég í Gömlubúð hjá Vatnajökulsþjóðgarði sem yfirlandvörður og sé um daglegan rekstur Gömlubúðar. Ég stunda nám við háskólabrú Keilis og mun útskrifast þaðan í vor. 

Þegar við vorum að vinna að stofnun Kex þá vorum við öll sammála um það að sveitarfélagið þarf að hafa skýra framtíðarsýn þar sem hugsað er til mikið lengri tíma en nú er gert. Það er nauðsynlegt að gera ráð fyrir stækkun sveitarfélagsins og í því samhengi líta til bjartsýnnar mannfjöldaspár. Húsnæði sem byggt er þarf að eiga möguleika á að taka breytingum,geta stækkað og aðlagast án þess að farið sé í nýjar framkvæmdir. 

Okkur finnst einnig mikilvægt að berjast fyrir gagnsæi í stjórnsýslunni. Með því að hafa stjórnsýsluna aðgengilegri og sýnilegri fær bæjarstjórn meira og betra aðhald og á sama tíma munu íbúar geta betur fylgst með þróun sveitarfélagsins. Íbúar eiga rétt á því að fá aðgengilegar upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar eru fyrir þau og rökstuðning fyrir þeim.

Umhverfismál eru mér persónulega hugleikin en mér finnst það mikilvægt að Sveitarfélagið Hornafjörður sé framsækið og leiðandi afl í umhverfismálum. Við þurfum að huga vel að náttúrunni og taka virkan þátt í að sporna við þeim afleiðingum sem hafa átt sér stað vegna hnattrænnar hlýnunar. Til þess þurfa allir að taka þátt og sveitarfélagið þarf að vera leiðandi og vera til fyrirmyndar fyrir íbúa þess.

Mér finnst það vera samfélagsleg skylda mín að taka þátt í sveitarstjórnarmálum og reyna að vinna að bættu samfélagi í þágu íbúa. Ég hef ekki mikla reynslu á þessu sviði en ég vona að ég fái tækifæri til þess að leggja mitt af mörkum, fyrir okkur öll. Það er mér mikilvægt að vera í góðu samstarfi við íbúa sveitarfélagsins og ég mun gera mitt allra besta til þess að leita til ykkar sem meira vitið því saman erum við sterkari.

Með kveðju og vinsemd,

Stefanía


Previous
Previous

Kex fyrir alla!

Next
Next

Hver er Eyrún?