Fyrstu mánuðurnir og framhaldið

Samstarfið hefur farið virkilega vel af stað, hvort sem er í nefndum eða bæjarráði og á milli allra flokka. Við erum afar vongóðar um að svona getum við haldið áfram og unnið öll saman af heilindum fyrir sveitarfélagið okkar. 

Þann 1. júní síðastliðinn tók ný bæjarstjórn við þar sem við tvær sitjum fyrir hönd Kex. Þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi síðar farið í sumarfrí, fram til 17. ágúst, var nóg að gera í bæjarráði og þessir fyrstu mánuðir okkar í starfi verið afar gefandi, skemmtilegir og krefjandi.

Eitt af okkar fyrstu verkum í bæjarráði var að ráða til starfa nýjan bæjarstjóra, Sigurjón Andrésson, og hóf hann störf hjá okkur 1. júlí. Við vonum að þið hafið sem flest fengið tækifæri til að hitta hann og ef ekki, að slíkt tækifæri gefist sem allra fyrst.

Samstarfið hefur farið virkilega vel af stað, hvort sem er í nefndum eða bæjarráði og á milli allra flokka. Við erum afar vongóðar um að svona getum við haldið áfram og unnið öll saman af heilindum fyrir sveitarfélagið okkar. 

Í nefndum og bæjarráði hafa ýmis málefni verið tekin upp í sumar eins og sjá má í fundargerðum á heimasíðu sveitarfélagsins. Fyrir nýja bæjarfulltrúa er þetta afar fróðlegt og mörg mál sem þarf að setja sig inn í. Stofnanir og starfsfólk sveitarfélagsins vinna ótrúlega fjölbreytt störf sem er heiður að fá að kynnast svona vel en stuðningur starfsfólks er ómetanlegur þegar málaflokkarnir eru svona margir. 

Nú þegar allt er komið aftur á skrið eftir sumarfrí þá stefnum við á að vinna þétt að okkar málefnum sem og þeim sem við samþykktum í málefnasamning við Sjálfstæðisflokkinn. Málefnasamningur Kex og Sjálfstæðisflokksins verður leiðarljós okkar í áframhaldandi störfum en hann má finna á heimasíðunni okkar. Í haust og fram í desember verður helsta vinnan að móta fjárhagsáætlun næsta árs. Þar fáum við tækifæri til þess að setja fjármagn í þær áherslur sem við lögðum t.a.m. í málefnasamningnum. 

Verkefnalistinn er langur og í mörg horn að líta, en við leggjum okkur fram við að nálgast þetta af skynsemi, hugsa fram í tímann og forgangsraða vel í þágu sveitarfélagsins. 

Það er okkur mikilvægt að eiga gott samtal við ykkur öll og fá ábendingar þegar eitthvað má betur fara eða þegar eitthvað er vel gert. Við viljum halda áfram þeim góðu samræðum sem við höfum verið svo heppin að eiga við íbúa og viljum við því minna á að hægt er að senda okkur skilaboð, ábendingar, kvartanir eða annað í gegnum heimasíðuna, samfélagsmiðla eða tölvupóstinn okkar kexframbod@gmail.com. Eins viljum við minna á íbúagátt sveitarfélagsins þar sem hægt er að senda inn ábendingar og hugmyndir um allt er varðar sveitarfélagið allt.

Við þökkum ykkur innilega traustið og hlökkum til næstu fjögurra ára. 

Fyrir hönd Kex,

Eyrún Fríða og Guðrún Stefanía 

Previous
Previous

Fjárfestum í Öræfum!

Next
Next

Vöndum til verka!