Vöndum til verka!

Mynd: Bryndís Bjarnarson

Nú þegar rúmlega mánuður er liðinn frá kosningum þá viljum við, fyrir hönd Kex, þakka fyrir allan þann stuðning, ráð og ábendingar sem við fengum bæði fyrir og eftir kosningar. Fyrsti bæjarstjórnarfundur er afstaðinn en bæjarstjórn fór í sumarfrí eftir þann fund þangað til 17. ágúst. Á meðan fundar bæjarráð hálfsmánaðarlega og hefur það gengið vel.

Kex undirritaði samning um meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn þann 29. maí. Við tókum okkur þann tíma sem þurfti til þess að vanda til verka og eftir stendur samningur sem að báðir flokkar eru sáttir við og stoltir af.

Þann 9. júní birtist tilkynning um ráðningu Sigurjóns Andréssonar, nýs bæjarstjóra. Hann mun hefja störf þann 1. júlí næstkomandi og erum við virkilega spennt fyrir því að fá hann til starfa og kynna hann fyrir íbúum sveitarfélagsins. 

Við erum jákvæð og bjartsýn fyrir næstu fjórum árum og mun þar gott samstarf meirihluta og minnihluta spila inn í. Mörg stór mál eru á dagskrá næstu mánuðina og ljóst er að vanda þarf til verka og skoða vel allar hliðar á málum. Áætlað er að vinna við nýja viðbyggingu við leikskólann Sjónarhól hefjist á haustdögum. Einnig þarf að taka ákvörðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja sem og finna lausn á núverandi fyrirkomulagi Sporthallarinnar þar sem núverandi samning hefur verið sagt upp. Við stefnum að því að finna leiðir til að halda íbúum sveitarfélagsins upplýstum um stöðu mála, hvort sem það yrði með greinarskrifum eða öðru. Við erum bjartsýn á að allir flokkar muni vinna í sameiningu til þess að finna farsæla lausn á þessu máli, sem og öðrum málum, sem verður sveitarfélaginu öllu til hagsbóta.

Að lokum viljum við benda á að við tökum glöð við öllum ábendingum, gagnrýni, spurningum eða hrósum á www.xkex.is undir flipanum ,,hafa samband’’. Við þökkum ykkur kærlega fyrir traustið og óskum ykkur gleðilegrar humarhátíðar!

Fyrir hönd Kex,

Eyrún Fríða Árnadóttir

Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Previous
Previous

Fyrstu mánuðurnir og framhaldið

Next
Next

Takk!