Leikskólinn Sjónarhóll
Þegar grunnþjónustan blómstar, blómstrar samfélagið. Leikskóli er einn af grunnstoðum hvers samfélags.
Leikskólinn Sjónarhóll nær ekki að blómstra eins og staðan er núna og hefur það slæm áhrif á samfélagið og ímynd sveitarfélagsins út á við. Við viljum að sveitarfélagið vaxi, íbúafjöldi aukist og að barnafjölskyldur sjá tækifæri í því að flytja í Sveitarfélagið Hornafjörð. Þegar fjölskylda flytur á nýjan stað þarf viðeigandi þjónusta að vera til staðar. Á seinustu árum hefur það allt of oft gerst að börn fjölskyldna sem eru nýjar í samfélaginu komast ekki að á leikskólanum, þrátt fyrir að vera komin á leikskólaaldur. Það er alger forsendubrestur fyrir því að fjölskyldan geti flutt í sveitarfélagið. Skortur á innviðum má ekki hindra vöxt samfélagsins.
Leikskóli er menntastofnun og á að þjóna sínu hlutverki með öflugu starfi. Á leikskóla þarf að starfa öflugt fólk og mikilvægt er að leita leiða til að fjölga leikskólakennurum. Einnig þarf að bæta við stöðugildum í stoðþjónustunni til að mæta auknum kröfum til þess að börnin fái góðan grunn inn í lífið og bregðast við margbreytileika barnahópsins.
Hávær umræða hefur verið um gjaldfrjálsan leikskóla en sú umræða er því miður ekki tímabær. Aðstaða leikskólans þarf að vera í lagi áður en hann verður gjaldfrjáls að fullu og fyrsta skrefið í átt að því er að tryggja að öll börn frá 12 mánaða aldri fái leikskólapláss. Svo að það sé hægt þarf að hafa nægt starfsfólk, hlutfall fagmenntaðra kennara viðunandi og nægt rými fyrir alla starfsemi leikskólans. Það er óboðlegt fyrir starfsfólk leikskólans, sem og fyrir börnin, að hrúga öllum inn í byggingu sem er alltof lítil.
Allar starfsgreinar eiga það sameiginlegt að verkefni starfsfólks verða að vera viðráðanleg: of mikið álag í vinnu kemur niður á gæðum starfsins og vellíðan starfsfólk. Hröð starfsmannavelta gefur til kynna að þar sé ekki allt eins og það á að vera. Leikskóli þarf að vera góður vinnustaður þar sem starfsfólk og börn njóta sín, það er gefandi og skemmtilegt að vinna með börnum þegar vinnuumhverfið er aðlaðandi. Það er deginum ljósara að ráðast þarf í að bæta starfsaðstæður í leikskólanum. Mönnunarvandinn er mikill sem stuðlar að gríðarlega auknu álagi á það starfsfólk sem mætir til vinnu. Að sjálfsögðu bitnar þetta einnig á börnunum þar sem hröð starfsmannavelta býr til óöryggi fyrir börnin og hefur áhrif á það fagstarf sem hægt er að vinna. Vellíðan barnanna er samofin vellíðan foreldranna.
Það er forgangsatriði Kex framboðs að koma leikskólanum Sjónarhóli í betra stand. Viðbygging leysir ekki allan vandann og er í raun bara tímabundin lausn á húsnæðisvanda leikskólans. Einnig þarf að tryggja nægt fjármagn í málaflokkinn svo að hægt sé að tryggja faglega og viðunandi starfsemi.
Staðan á leikskólanum er óþolandi og við viljum breytingar til hins betra, strax! Þetta er málefni sem þolir enga bið barnanna okkar og starfsfólksins vegna.
Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir, 2. sæti
Róslín Alma Valdemarsdóttir, 6. sæti
Höfundar skipa sæti á K – lista Kex framboðs
www.xkex.is