Tökum þátt!

Í litlum hópi munar mikið um hvern og einn og íbúar á landsbyggðinni eru iðulega í mörgum hlutverkum í samfélaginu. Sjálf er ég í ýmsum félagasamtökum og stunda þar meðal annars gönguferðir, viðburði af ýmsu tagi, söng og ritstörf. Við þekkjum það líka öll að þegar boðið er upp á tónleika, leiksýningar eða aðra listviðburði þá skiptir máli að við mætum; það dregur úr krafti þeirra sem standa að slíku ef mætingin er dræm: með þátttöku verður hver og einn mikilvægur hluti heildarinnar.

Hópur af áhugasömu fólki tók sig saman og stofnaði nýtt framboð til sveitarstjórnarkosninga. Framboðið fékk nafnið Kex, sem er tilvísun í hressingu og fjallaskarð milli Nesja og Lóns. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar gekk ég til liðs við þriðja framboðið og hef síðan þá verið varamaður í bæjarráði og bæjarstjórn auk þess að sitja í menningarmálanefnd (sem eftir sameiningu tveggja nefnda varð atvinnu- og menningarmálanefnd). Þriðja framboðið tók ákvörðun um að bjóða ekki fram að þessu sinni, en ég ákvað að ganga til liðs við Kex framboðið því mér leist vel á stefnu þeirra og hópinn sem stendur að framboðinu.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá hve öflugur hópur af ungu fólki tekur þátt í sveitarstjórnarmálunum núna og endurnýjun er af hinu góða. Bestur árangur næst alltaf með breiðri samvinnu fulltrúa ólíkra hópa, hvað varðar aldur, kyn, búsetu, störf og fyrri reynslu. Það stefnir í mikla endurnýjun sem sést á öllum framboðslistunum, mikilvægt er að hluti hópsins byggi upp áframhaldandi reynslu fyrir komandi kjörtímabil. Í ljósi þess langar mig að koma með eitt lítið ráð til okkar sem búum í samfélaginu, sem vonandi verður til þess að auðvelda nýju fólki að byggja sig upp í starfinu.

Vinur er sá er til vamms segir, gagnrýni er oft á tíðum fyrsta skref til úrbóta, en tilgangurinn með gagnrýninni hefur stundum áhrif á framsetninguna. Það er hægt að gagnrýna til að geta síðar sagt, sigri hrósandi: hvað sagði ég ekki! Sem betur fer eru margir sem gagnrýna í þeim tilgangi að fá fram úrbætur, benda á hvað má betur fara. Gagnrýnin þarf að beinast að orðum eða athöfnum en ekki persónueiginleikum. Sjálf aðhyllist ég þá aðferð: ég reyni yfirleitt að nota uppbyggilega gagnrýni í stað niðurrifs. Ástæðan er augljós, það eru meiri líkur á farsælli lausn ef við vinnum saman heldur en ef við látum höggin dynja hvert á öðru (í óeiginlegri merkingu). Samfélagið okkar verður betra ef við munum öll eftir að sýna hvert öðru virðingu í samskiptum, hvort sem við erum sammála eða ósammála. Það hlýtur að vera lokamarkmið okkar allra, að skapa betra samfélag þar sem allir fá að njóta sín.

Sigrún Sigurgeirsdóttir

Höfundur skipar 7. sæti á K – lista Kex framboðs

Previous
Previous

Leikskólinn Sjónarhóll

Next
Next

Sveitarfélagið Hornafjörður eftir 100 ár