Mikilvægi samfélagsþátttöku
Sveitarfélagið Hornafjörður er fallegur staður til að búa á, umkringdur stórbrotinni náttúru, fjöllum, jöklum og sjó. Það er líka annað sem okkur þykir fallegt við það að búa í Hornafirði og það er samfélagið og náungakærleikurinn. Nándin sem maður á með nágrannanum og öllum þeim sem maður heilsar, þó það sé ekki nema bara út í búð, sem finnst ekki eins oft í stærri samfélögum.
Samfélag skiptir sköpum og það er mikilvægt að hlúa að fjölbreytileika þess. Með auknum fjölbreytileika öðlumst við aukinn mannauð og nýja þekkingu.
Við, undirritaðar, höfum báðar sterk tengsl við Hornafjörð. Sigga fluttist hingað 12 ára að aldri, og hefur ekki séð annan stað fyrir sér til að búa á og stofna fjölskyldu sem heldur betur bætir inn í fjölbreytileika Hornafjarðar. Róslín er fædd og uppalin á Höfn og býr hér ásamt manni sínum og syni þeirra.
Við höfum báðar sterka réttlætiskennd og viljum að raddir allra fái að heyrast, því er samtalið og auðmýktin mikilvæg. Samfélagið á að vera aðgengilegt öllum og við eigum öll jafnan rétt á að taka þátt í því. Við erum heild, þetta snýst um okkur öll.
Við höfum báðar verið virkar í menningarlífi Hornafjarðar og þá má helst nefna Leikfélag Hornafjarðar. Við þekkjum af eigin reynslu hvað öflugt menningarlíf gefur samfélaginu mikið, bæði fyrir þá sem taka þátt í starfinu sjálfu og þeim sem sækja viðburðina. Í menningarstarfi fær fólk á öllum aldri og úr öllum áttum samfélagsins að spreyta sig á öðrum sviðum. Fólk getur til dæmis farið í leikhús og fengið smá pásu frá raunveruleikanum eða farið á tónlistaviðburði og notið. Fjölþjóðaeldhús er framtak sem hefur verið gríðarlega vinsælt, svo vinsælt að ekki hafa allir komist að sem vildu á þá viðburði. En við erum rík, hafandi fólk frá yfir 50 þjóðernum í sveitarfélaginu og getum því kynnst menningu margra ólíkra þjóða. Þá hefur Humarhátíð verið að þróast, en undirfarin tvö ár hefur Covid-19 sett strik í reikninginn en með þátttöku okkar íbúa getum við gert þessa hátíð öfluga fyrir okkur öll.
Við þurfum að setja meiri fókus á ungmennin okkar, við viljum halda í þau og efla. Við viljum að öflugt starf í FAS haldi áfram og að listabraut, fjallaleiðsögunám, sem og aðrar brautir, fái að dafna áfram ásamt því að auka tækifæri ungmennanna utan skóla. Það er mikilvægt að hlusta á hvað þau vilja og þurfa til þess að þau sjái tækifærin í því að búa í sveitarfélaginu í framtíðinni. Við þekkjum það báðar, að hér eru mikil tækifæri fyrir ungt fólk og ungar fjölskyldur. Hér er einnig öflugt félagsstarf sem við viljum að haldi áfram að blómstra, félag eldri borgara, kórarnir okkar eru fjölmennir, heilsuefling fyrir 60+, Fenrir, Hlaupahópur Hornafjarðar, Leikfélag Hornafjarðar, kvenfélög, góðgerðarsamtök og svo lengi mætti telja.
Það er mikilvægt að öll í samfélaginu geti fundið eitthvað við sitt hæfi og að það sé aðgengilegt öllum þeim sem vilja taka þátt. Hér er öflugt félags-, íþrótta- og menningarstarf og viljum við halda í, efla það og styðja enn frekar. Því að með samvinnu og samtali byggist litríkt og skemmtilegt samfélag.
Höfundar eru:
Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir, 4. sæti á framboðslista Kex
Róslín Alma Valdemarsdóttir, 6. sæti á framboðslista Kex