Sveitarfélagið Hornafjörður eftir 100 ár

Birtist upphaflega í Eystrahorni 5. maí 2022

Innblásið út frá spurningu Heiðars Sigurðssonar inn á umræðuhóp á Facebook.

Þegar ég settist niður til að hugsa út í spurninguna ,,Hvernig sjáum við Sveitarfélagið Hornafjörð fyrir okkur eftir 100 ár’’, þá var nokkuð ljóst að svarið gæti orðið langt. 30 sekúndur til að svara stórri og mikilvægri spurningu líkt og þessari var einfaldlega ekki nóg! Það er mikilvægt að velta þessu  fyrir sér og horfa á stóru myndina, ekki einungis til næstu 4 ára. Það má gera ráð fyrir því að næstu 50 árin í umhverfis- og loftslagsmálum muni eiga stóran þátt í því að móta framtíðina. Hér í Sveitarfélaginu Hornafirði þurfum við að vera undirbúin undir það að umhverfið hér gæti orðið gjörbreytt frá því sem við þekkjum í dag. Ef ekki tekst að draga úr þeirri þróun sem nú á sér stað í loftslagsbreytingum munu jöklarnir væntanlega minnka til muna og land rísa. Þessi þróun getur haft veruleg áhrif á innsiglingu báta og skipa á Höfn. Höfn í Hornafirði er sjávarpláss þar sem útgerð er og hefur ávallt verið ein af forsendum fyrir blómlegu lífi í bænum. Við viljum tryggja að svo verði áfram. Rafvæðing hafnarinnar er eitt af lykilatriðum þess að sveitarfélagið geti dregið úr kolefnislosun sinni og mætt þeim markmiðum sem Ísland hefur sett sér.

Ferðaþjónustan byggist á náttúruperlum og þarf stöðugt að aðlagast breyttum aðstæðum, jöklar og íshellar hafa gífurlegt aðdráttarafl en þeir eru eins og við vitum breytilegir, ár frá ári. Það er mikilvægt að við gerum allt í okkar valdi til þess að sporna við enn frekari afleiðingum af loftslagsbreytingum, afleiðingar sem vaxa ef ekki er gripið inn í.  Við þurfum því að geta brugðist skjótt við og unnið í sameiningu eins og ég veit að við getum.

Ég vil líta með jákvæðum augum á framtíðina hér í sveitarfélaginu. Hér verður áfram blómlegt samfélag með fjölbreyttri atvinnustarfsemi tengdri ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði, fjallamennsku og gróskumiklu skólastarfi ásamt öflugu nýsköpunarstarfi. Undanfarin ár hafa Öræfin og Suðursveit laðað að sér ungt fólk sem stundar klifur og útivist. Sumir úr þeim hópi hafi síðan flutt í þéttbýlin á Höfn eða í Nesjum til að vera nær fjölbreyttri grunnþjónustu. Grunnþjónusta er ein af forsendum þess að fólk velur að slá sér niður á ákveðnum stöðum. Ef við viljum að fólk haldi áfram að velja sér búsetu um allt sveitarfélagið þarf grunnþjónustan að taka mið af því. Uppbygging innviða sveitarfélagsins á að taka mið af þörfum samfélagsins í heild. 

Það er raunhæft markmið að í sveitarfélaginu muni búa 5000 manns eftir 100 ár, en þá þarf að huga að því að allir innviðir stækki í takt við íbúaþróun.  Ef framþróun og velsæld heldur áfram mun fólk lifa lengur með bættri heilsu. Tryggja þarf að þjónusta og innviðir sem styðja við eldri íbúahóp sveitarfélagsins séu til staðar. Nægt hjúkrunarrými þarf að vera til staðar sem og fjölbreytt þjónusta við þá aðila sem enn geta og vilja búa í eigin húsnæði.

Ég óska eftir umboði þínu kæri kjósandi til þess að vinna að þessum málum. Því hvet ég þig til þess að setja X við K 14. Maí.

 

Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti á K – lista Kex framboðs

www.xkex.is

Previous
Previous

Tökum þátt!

Next
Next

Mikilvægi samfélagsþátttöku