Nýtt íþróttahús á Höfn - hugsum til framtíðar
Nú hefur endanlega verið tekin ákvörðun um að hefja byggingu nýs íþróttahúss á gamla malarvellinum við Víkurbraut eins og gert er ráð fyrir í núverandi skipulagi. Þegar húsið hefur verið reist verða gerðar breytingar á núverandi íþróttahúsi og fimleikadeildin mun hafa þá aðstöðu fyrir sig.
Í þessari greinargerð vilja fulltrúar K og D lista gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja að baki ákvörðuninni.
Eins og íbúar hafa tekið eftir hefur stýrihópur um nýtt íþróttahús fundað reglulega og öllum hliðum málsins hefur verið velt upp í víðtæku samráði við hagaðila og fagfólk. Unnið hefur verið að ólíkum útfærslum hússins til að tryggja að notkunin sé sem best og þjóni heildarhagsmunum sveitarfélagsins sem lengst. Frumhönnun á þremur ólíkum útfærslum var útfærð ásamt ASK arkitektum og með ráðgjöf frá Verkís. Í kjölfarið vann Verkís kostnaðargreiningu á þeim hönnunum og lagði fyrir stýrihópinn. Ljóst er að það kostnaðarmat sem hópurinn fékk í hendurnar gerir það að verkum að ekki verður hægt að halda áfram með verkefnið miðað við þær forsendur, vegna þess hve kostnaðurinn er hár. Skiptir þá engu hvaða útfærsla yrði fyrir valinu, þar sem þær eru allar metnar á hátt í eða yfir fjóra milljarða króna.
Í kjölfar þess að kostnaðarmatið var lagt fram fór af stað vinna á mannvirkjasviði sveitarfélagsins við að rýna gögnin og sjá hvort hægt væri að komast að hagkvæmari niðurstöðu, því ekki verður hjá því komist að þörfin fyrir fullnægjandi íþróttaaðstöðu er enn brýn og ekki boðlegt fyrir íbúa að láta verkefnið staðna.
Nú hefur því verið ákveðið að halda áfram með verkefnið undir verkstjórn mannvirkjasviðs á gamla malarvellinum við Víkurbraut.
Drögum úr áhættu.
Eitt aðaláhættuatriðið við framkvæmdir á miðsvæðinu er að tryggja öryggi allra þeirra sem ferðast um svæðið á framkvæmdatímanum. Miðsvæðið okkar er allt í senn skólalóð barnanna, göngu og hjólaleiðir, útivistar- og íþróttasvæði fólks á öllum aldri og það svæði sem hefur verið hvað öruggast fyrir börnin okkar með tilliti til bílaumferðar. Því eru allar ákvarðanir um að raska því svæði alvarlegar og mikilvægar. Það er því algjört forgangsmál að öryggismál fái aukið vægi í þessari ákvarðanatöku og séu hugleidd allt frá upphafi.
Einnig verður ekki hjá því litið að framkvæmdin verður einfaldari, þar sem ekki þarf að fara í neinar breytingar á sundlaugargarði, tilfærslur á fótboltavelli eða aðrar breytingar sem viðbygging mun krefjast. Með því drögum við úr áhættu, bæði framkvæmdarlegri en einnig fjárhagslegri. Með því að byggja á malarvellinum verður framkvæmdin ekki eingöngu einfaldari heldur einnig mun öruggari þar sem börnin okkar þurfa ekki að ferðast um framkvæmdasvæðið til þess að sækja tómstundir, íþróttir eða skólastarf.
Heildarmynd miðsvæðis
Miðsvæðið sem markast af Víkurbraut og Hafnarbraut þjónar afar ólíkum hlutverkum hér á Höfn. Börnin okkar verja deginum sínum að mestu leiti innan þess í leik og starfi og það má ekki vanmeta þau ótrúlegu gæði sem felast í svona góðu og öruggu miðsvæði. Svæðið er einnig hátíðarsvæðið okkar fyrir ýmis hátíðahöld og viðburði, útivistarsvæði íbúa á góðviðrisdögum og stígarnir mynda grunn að öruggum og virkum ferðamátum fyrir alla. Sú ákvörðun að raska þessum gæðum má því aldrei verða léttvæg og mikilvægt að öll uppbygging á svæðinu taki tillit til þeirra fjölbreyttu hlutverka sem það þjónar. Sérstaklega er mikilvægt að huga að framtíðar möguleikum svæðisins með tilliti til skólalóðar, þar sem stefnt er að því í framtíðinni að Grunnskóli Hornafjarðar flytjist undir eitt þak í Heppuskóla.
Því er það mat okkar að bygging á gamla malarvellinum muni betur þjóna hagsmunum heildarsvæðisins og auka notkunarmöguleika miðsvæðisins til framtíðar.
Framtíðarþróun íþróttamannvirkja
Miðað við umfang íþróttastarfsemi í sveitarfélaginu og metnað íbúa er eðlilegt að við gerum ráð fyrir því að geta þroskast og stækkað. Eins hefur verið rætt um mikilvægi þess að geta áfangaskipt framkvæmdinni til þess að gæta þess að framkvæmdin verði ekki of stór biti fyrir sveitasjóð. Með því að byggja þá fjarri núverandi skóla og íþróttahúsi má betur gefa svigrúm til framtíðaruppbyggingar og stækkunar. Verði byggt við núverandi hús höfum við bæði sett íþróttamannvirkjum, grunnskólanum og skólalóðinni töluvert þrengri skorður en ef byggt er á malarvellinum og erfitt yrði að bæta eða efla þá aðstöðu í framtíðinni. Á sama tíma má ná fram betri þjónustu strax við iðkendur knattspyrnu og frjálsíþrótta með því að skapa betri tengingu og aðstöðu nær Bárunni og við Jökulfellsvöllinn.
Einnig fæst töluvert betri nýting með því að halda enn núverandi íþróttahúsi í notkun. Með því má draga töluvert úr þeirri fjárhagslegu óvissu sem fælist í því að breyta núverandi húsi. Einnig opnast sá möguleiki að í framtíðinni sé hægt að þróa Grunnskóla Hornafjarðar á því svæði sem núverandi hús stendur á.
Ákvörðunin um hvar skuli byggja húsið hefur vissulega ekki verið einföld. Stýrihópurinn hefur fengið ógrynni af gögnum, álitum og ráðleggingum frá fólki með ólíka hagsmuni og sérþekkingu. Unnið hefur verið út frá þarfagreiningu allra deilda, samráð átt við grunnskólann, framhaldsskólann og fleiri sem nýta sér íþróttahúsið til að það megi þjóna sem flestum. Þá hafa hópnum borist bréf þar sem vilji og skoðanir deilda, félaga og íbúa er ítrekaður.
Því er mikilvægt að árétta að hlutverk stýrihópsins er ekki að byggja ákvarðanir sínar á neinu öðru en heildarhagsmunum samfélagsins. Einmitt þess vegna hefur ákvörðunin tekið sinn tíma þar sem ótal ólík sjónarhorn skipta máli.
Við, fulltrúar K og D lista, teljum leið A, þ.e. íþróttahús við Víkurbraut og fimleikaaðstaða í núverandi íþróttahúsi, vera ábyrgustu leiðina áfram. Hún gerir okkur kleift að halda áfram með verkefnið, leggja grunn að góðu og faglegu íþrótta- og tómstundastarfi til framtíðar, gefa grunnskólanum rými til að dafna og stækka á sama tíma og við nálgumst fjárhagshliðina með ábyrgum hætti, svo að sveitarfélagið geti sinnt annarri uppbyggingu samhliða byggingu nýs íþróttahúss.
Eyrún Fríða Árnadóttir - fulltrúi K lista
Björgvin Hlíðar Erlendsson - fulltrúi D lista