Upp, upp og áfram!
Upp á síðkastið hefur uppbygging íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu verið til umræðu og undirbúningsvinnan sömuleiðis. Að mörgu er að hyggja, en við erum gríðarlega heppin með staðsetningu skóla- og íþróttamannvirkja á Höfn. Stutt er á milli bygginga og fáar götur sem börnin okkar þurfa að fara yfir. Deiliskipulag fyrir svæðið var nýlega samþykkt og skipulag á uppbyggingu svæðisins er í vinnslu.
Framtíðin er okkar, vinnum vel að henni
Unnið er að forgangsröðun uppbyggingu íþrótta- og skólamannvirkja sveitarfélagsins. Í vetur var haldinn fundur með hagsmunaaðilum í þeim tilgangi að fá sem flest sjónarmið að borðinu. Fólkið okkar sem vinnur vinnuna dagsdaglega er með ómetanlega reynslu og þekkingu sem er nauðsynlegt að fá upp á borðið til þess að hægt sé að taka góðar og upplýstar ákvarðanir. Unnið hefur verið úr þeim gögnum og nú er verið að kanna mögulega staðsetningu nýs íþróttahúss. Í apríl í fyrra var leiktímabil innan KSÍ lengt í báða enda ásamt því að kröfur um gervigrasvelli urðu háværari bæði hérlendis sem erlendis. Í kjölfarið hófust miklar umræður um vöntun á gervigrasvelli og að ástand Jökulfellsvallar (áður Sindravellir) og Mánavallar væri óviðunandi. Sindri hefur því þurft að spila sína heimaleiki utan sveitarfélagsins og borga fyrir það, sem er högg á fjárhag knattspyrnudeildarinnar. Nú er farið eftir verkáætlun á umhirðu vallanna beggja, unnið er að því að laga dren Jökulfellsvallar og vökvunarmöguleikar kannaðir á Mánavelli.
Húsnæði Grunnskóla Hornafjarðar er komið til ára sinna og hefur ánægja foreldra með aðstöðuna lækkað á síðustu árum. Þörf er á að sameina skólastarfið í eina byggingu sem mætir þörfum skólastarfsins. Öll þessi þörfu verkefni skapa því spennandi áskorun fyrir sveitarfélagið og samfélagið allt þar sem við vinnum saman að því að móta framtíðarsýn og skynsama forgangsáætlun sem við getum öll verið stolt af og unnið saman að.
Það er óþægilegt að vera í óvissu en markmið Kex er að vanda til verka og fara ekki í uppbyggingu á mannvirkjum sem munu ekki endast sveitarfélaginu til lengri tíma heldur til allavega næstu fimmtíu ára. Við vonumst þó til þess að ákvörðun verði tekin sem fyrst til að geta eytt óvissunni og allir séu á sömu blaðsíðu varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu.
Uppbygging og endurbætur
Endurbæturnar á Hofgarði í Öræfum voru góðar og þarfar og fólk almennt ánægt með þær, en Hof nýtist ekki einungis sem skóli og leikskóli heldur líka sem samkomusalur fyrir Öræfinga.
Viðbygging leikskólans Sjónarhóli er í útboði, en hönnunin var unnin með starfsfólki leikskólans, þar sem sjónarmið og þekking þeirra kom að góðum notum. Sú vinna tók sinn tíma en mun skila sér margfalt til baka, til starfsfólks, foreldra og til yngstu íbúanna sem eru framtíð þessa sveitarfélags.
Skjólgarður heldur áfram að rísa og fyrr en varir verðum við komin með glæsilegt hjúkrunarheimili fyrir fólkið okkar.
Til stendur að klára endurbætur á Sindrabæ á kjörtímabilinu og er stefnt að því að setja þær endurbætur á fjárhagsætlun fyrir næsta ár, en hafa þær fengið að sitja á hakanum of lengi í gegnum nokkur kjörtímabil.
Einnig er verið að vinna að því að bæta leiksvæði sveitarfélagsins og verður byrjað á að fara í endurbætur á leikvellinum á Laufásvegi (milli Miðtúns og Hagatúns) í sumar.
Að lokum
Sveitarfélagið Hornafjörður er vissulega eyland, en það þarf ekki að vera neikvætt. Samfélagið okkar er sterkt og ef við vinnum saman erum við enn sterkari.
Höldum því áfram að byggja upp og styrkja innviðin okkar, vöndum til verka og gerum sveitarfélagið enn eftirsóttara til búsetukosta.
Við erum öll saman í liði.
Róslín Alma Valdemarsdóttir, formaður fræðslu- og frístundanefndar og Kristján Örn Ebenezerson, aðalmaður fræðslu- og frístundanefndar