Röng forgangsröðun

Þann 21. mars síðastliðinn voru kynnt áform meirihluta bæjarstjórnar um uppbyggingu miðsvæðis á Höfn í Hornafirði. Eins voru kynntar teikningar að nýrri líkamsræktarstöð sem verður fyrsta uppbyggingin samkvæmt kynningu á deiliskipulagi. Allt deiliskipulagið, þar á meðal líkamsræktarstöðin, var kynnt undir formerkjum heilsueflandi og barnvæns samfélags og sem mikilvægur liður í þeirri uppbyggingu. Það má hins vegar deila um það hvort að líkamsræktarstöð sé mikilvægur fyrsti liður uppbyggingarinnar. 

Með þeirri uppbyggingu sem kynnt var á fundinum er fyrst og fremst verið að losa sveitarfélagið undan leigusamningi á núverandi líkamsrækt í nafni hagræðingar. Erfitt er að sjá hver hagræðingin er á meðan kostnaðarliðurinn er enn talinn trúnaðarmál, en gera má ráð fyrir um 500-600 milljónum króna. Við getum gefið okkur það að sú upphæð gæti dugað ansi lengi fyrir leigu, sérstaklega með vöxtum. 

Þegar horft er á skipulagið með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi má leiða líkur að því að önnur forgangsröðun yrði mun betri kostur. Nýtt íþróttahús væri til þess fallið að styðja við íþróttir og tómstundir í sveitarfélaginu, í nafni heilsueflandi og barnvæns samfélags.  Þar að auki yrði það fyrsta skrefið í að koma tómstunda og íþróttastarfsemi sveitarfélagsins í viðunandi húsnæði. 

Núverandi íþróttahús er orðið alltof lítið og uppfyllir ekki skilyrði til keppnishalds t.d. í körfubolta sem við Hornfirðingar erum að verða ansi framarlega í. Þá er búningaaðstaða óboðleg,  áhorfendaaðstaða lítið skárri og aðgengi ábótavant. Með byggingu nýrrar aðstöðu myndi rýmka verulega um tímafjölda í húsinu og yngri flokkar gætu fengið þann tímafjölda sem þeir raunverulega þurfa. Framfaraskref væri tekið til þess að rétta hlut kynjanna í íþróttum þar sem erfitt hefur verið að byggja upp kvennastarf t.d. í körfubolta vegna skorts á tímum í núverandi íþróttahúsi.

Með stærra íþróttahúsi, og þar af leiðandi fleiri tímum í töflu þess, myndast einnig rými fyrir aðra hópa úr samfélaginu til þess að iðka íþróttir. Sem dæmi mætti nefna; afrekssvið FAS, leikskólabörn, eldri borgarar og fatlað fólk.

Þegar nýtt íþróttahús væri tekið í notkun er ljóst að til staðar væri gamalt íþróttahús sem vantar tilgang. Það gæti, til dæmis, vel nýst sem fimleikahús, a.m.k. þar til gengið yrði í að byggja nýtt hús undir þá starfsemi. Í dag er börnum keyrt út í Mánagarð til fimleikaiðkunnar með tilheyrandi kostnaði. Þar mætti því sækja hagræðingu með því að flytja fimleikana í húsnæði sem hentar þeim mun betur og krefst ekki daglegs aksturs fram og til baka fyrir börnin til að sækja æfingar. 

Ef fimleikar myndu færast inn á Höfn í gamla íþróttahúsið við Heppuskóla þá myndi losna um Mánagarð. Undanfarið hefur Leikfélagið verið að sýna þar sýninguna Hvert örstutt spor. Í kringum það hefur komið upp togstreita varðandi notkun á húsinu enda aðstaðan þegar í notkun af öðrum aðila. Mánagarður er skráður sem menningarhús sveitarfélagsins og myndi njóta sín einvörðungu sem slíkt. Hægt væri að ráðast í endurbætur á húsinu með það í huga að byggja þar upp glæsilega aðstöðu handa menningarlífinu sem einnig gæti nýst sem veislu og sýningarhúsnæði til útleigu. Heilsueflandi samfélag snýr ekki aðeins að líkamlegri heilsueflingu heldur líka að félagslegri- og andlegri heilsueflingu. Menningar og listastarf ýtir heldur betur undir þá þætti.

Það er því ljóst að með breyttum áherslum í uppbyggingu á miðsvæði Hafnar í Hornafirði er hægt að stuðla að meira heilsuelfandi og enn barnvænna samfélagi. Þá skiptir sköpum að hafa hagsmuni heildarinnar og skýra framtíðarsýn að leiðarljósi. 


Kex framboð

www.xkex.is

Previous
Previous

Hver er Eyrún?

Next
Next

Stofnfundur Kex