Stofnfundur Kex
Miðvikudaginn 23. febrúar fór stofnfundur framboðsins Kex fram í Nýheimum. Fundurinn var vel sóttur, en um 40 manns voru samankomin í raun- og netheimum.
Grunngildi félagsins voru kynnt og eru eftirfarandi:
Jafnrétti
Í öllum ákvörðunum og starfi Kexins skal jafnrétti vera í forgrunni. Við leggjum áherslu á að gæta jafnréttis á öllum þeim sviðum sem snerta fólk og íbúa sveitarfélagsins, hvort sem er vegna búsetu, kyns, uppruna eða nokkurs annars.
Tryggja þarf að ákvarðanir sveitarfélagsins séu teknar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Enginn einn hópur er rétthærri öðrum og það er ein af okkar megin áherslum að tryggja að hér sé komið fram við alla af virðingu og heilindum.
Umhverfi
Sveitarfélagið Hornafjörður á að vera framsækið og leiðandi afl í umhverfismálum, íbúum og fyrirtækjum til fyrirmyndar. Umhverfismál eiga að vera hluti af fjárhagsáætlunargerð og með því fá aukið vægi í allri stjórnsýslu. Hamfarahlýnun er ein stærsta áskorun nútímasamfélags og sveitarfélagið þarf að taka mið af því. Heilbrigt umhverfi, náttúra og loftslag er forsenda fyrir því að sveitarfélagið geti haldið áfram að vaxa og dafna.
Menning
Við viljum halda áfram að tryggja og styðja við öflugt menningarstarf í sveitarfélaginu. Menningarmiðstöð Hornafjarðar á að vera leiðandi afl í menningarlífi sveitarfélagsins. Hún á að vera drífandi í því að leiða saman fyrirtæki og einstaklinga sem vilja koma á menningarviðburðum ásamt því að styðja við þá listamenn sem hér búa og munu búa í framtíðinni.
Sýnileg stjórnsýsla
Allar ákvarðanir sem teknar eru í stjórnsýslunni eiga að vera í þágu íbúa sveitarfélagsins og því er grundvallaratriði að þær séu greinilegar, gagnsæjar og yfir allan vafa hafnar.
Með því að hafa stjórnsýsluna aðgengilegri og sýnilegri fær bæjarstjórn meira og betra aðhald og á sama tíma munu íbúar geta betur fylgst með þróun sveitarfélagsins. Íbúar eiga rétt á því að fá aðgengilegar upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar eru fyrir þá.
Skýr framtíðarsýn
Við teljum nauðsynlegt að ákvarðanir sveitarfélagsins séu hugsaðar til lengri tíma en nú er gert. Ákvarðanir um nýtt skipulag, byggingarframkvæmdir og aðra uppbyggingu sveitarfélagsins þurfa að vera sniðnar að því að þær geti þróast í framtíðinni. Gera þarf ráð fyrir því að bærinn muni stækka, jafnvel samkvæmt bjartsýnustu spám. Húsnæði á vegum sveitarfélagsins í framtíðinni þarf að geta tekið breytingum, stækkað og aðlagast án þess að farið sé í nýjar framkvæmdir frá grunni.
Þá voru lög Kex kynnt og samþykkt.
Stjórn Kex var sjálfkjörin, formaður stjórnar er Elías Tjörvi Halldórsson, önnur í stjórn eru í stafrófsröð Anna Ragnarsdóttir Pedersen, Helga Árnadóttir, Hrafnhildur Ævarsdóttir, Róslín Alma Valdemarsdóttir, Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir, Skúli Ingibergur Þórarinsson og Þorgrímur Tjörvi Halldórsson.
Stofnfundi var slitið og fólk færði sig fram á Nýtorg til að ræða málin yfir kaffi og kexi. Því miður urðu þau mistök á að slökkt var á fundinum á netinu, en nokkrir náðu að koma aftur inn. Óformlegar umræður eftir fundinn voru bæði gagnlegar og ánægjulegar.
Nú leggjum við af stað í málefnavinnu og undirbúning kosninga og viljum endilega fá ykkur sem flest að borðinu með okkur. Íbúar sveitarfélagsins eru gríðarlega fjölbreyttir og við viljum fá ykkar sjónarmið, þekkingu og reynslu til liðs við okkur svo að við getum raunverulega starfað í ykkar þágu. Rafrænir fundir verða haldnir á næstu dögum og vikum þar sem hver fundur verður tileinkaður ákveðnum málefnum. Þar geta allir tekið þátt og komið sínum hugmyndum á framfæri. Í kjölfarið verður stefna framboðsins kynnt.
Við viljum hvetja ykkur öll til að hafa samband, hvort sem er til að taka þátt, koma með ábendingar eða spyrja spurninga í gegnum tölvupóst kexframbod@gmail.com.